Tenerife 2010 - upplýsingar

Æfingaferð til Tenerife 26.mars – 07.apríl 2010

Hotel oro negroLagt verður af stað með rútu frá Sundlaug Akureyrar kl. 23 að kvöldi fimmtudagsins 25. mars.

Brottför frá Keflavík til Tenerife kl.8:00 (flugnr. AEU833). Flogið er í beinu leiguflugi með Boeing 757 frá Iceland Express (Astraeus) báðar leiðir. Flugið tekur um fimm og hálfa klukkustund þannig að lent er á Tenerife kl. 13:30. Á veturna er nefnilega sami tími á Tenerife og Íslandi en þann 1. apríl flýta þeir klukkunni um einn tíma og þá verður Tenerife klukkutíma á undan Íslandi.

Heimferð er miðvikudaginn 7. apríl kl. 15:15 (flugnr. AEU832), lent kl. 19:45 á Íslandi. Áætluð heimkoma til Akureyrar kl.03 að morgni fimmtudagsins 8. apríl.

Skoða veðrið á Tenerife núna

Klæðnaður út og heim
Óðinsgalli/peysa (rauða), Óðinsbolur nýr hvítur. Ath. að þetta er skylda.

Gisting og fæði
Gist verður í 2-3 manna herbergjum á Hotel Catalonia Oro Negro (sjá mynd hér að ofan). Fullt fæði, ýmist hlaðborð eða þjónað til borðs. Fararstjórar og þjálfarar sjá um vatn og ávexti á milli mála (innifalið í heildarverði). Hótelið er á Amerísku ströndinni, vinsælasta sólarstað Tenerife :-)

50 m Sundlaug tenerifeÆfingar
sundlaugFlesta daga verða 2 æfingar á dag, fyrripart og seinnipart, auk þrekæfinga. Sundlaugin (sjá mynd) er í um 10 mín göngufæri frá hótelinu og er 50 m útilaug. Alls kyns afþreying er í boði. Farið verður í vatnsleikjagarð og fleira gert til skemmtunar til að brjóta upp æfingarnar og kynnast eyjunni ferkar.

Fatnaður / Búnaður
Óðinsgalli, hettupeysa, Óðins stuttbuxur, Óðins bolir stutterma og langerma. Léttur fatnaður, stuttbuxur, hlýrabolir, derhúfur, sandalar (opnir skór), sólaráburður (mikil vörn/vatnsvörn PRODERM FROÐA MJÖG GÓÐ), æfingaföt, æfingabúnaður, hlaupaskór, handklæði og þ.h.

Vegabréf, tryggingar
Athuga þarf í tíma að vegabréf séu ekki útrunnin. Ljósriti af vegabréfi ber að skila til fararstjóra ekki seinna en við brottför. Ganga þarf úr skugga um að börnin séu tryggð í ferðinni. SOS kort frá Tryggingafélagi og/eða Evrópska sjúkratryggingakortið E111 frá Tryggingarstofnun (er á ábyrgð foreldra). Sótt er um Evrópska sjúkratryggingakortið  á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins. Koma þarf þeim upplýsingum einnig til fararstóra.

Lyf
Þurfi sundmaður einhverra hluta vegna að taka inn lyf í ferðinni ber að tilkynna það skriflega fyrir brottför til fararstjóra.

Farasímar
Farasímar verða leyfðir í ferðinni enda eru þeir öryggistæki ef rétt er með þá farið. Verið ekki að hringja hvert í annað að óþörfu, því símtöl erlendis eru dýr. Ef þið ætlið að hringja í íslenskt númer þurfið þið að slá inn  +354 og svo númerið.

Merkingar
Munið að merkja allar ykkar eigur vel svo ekki komi til ruglings þegar fatnaðurinn er þveginn en fararstjórar munu sjá um þvotta. Ekki er ástæða til þess að hafa með sér nein ósköp af fatnaði

Þjálfarar og fararstjórar
Með í för verða 2 þjálfarar (Vlad og Svetlana) og 3 fararstjórar
Ásta   s: 864-6403
Halldór  s: 861-4331
Steina  s: 899-4321

Vasapeningur
Sundmennirnir eiga ekki að  þurfa að hafa með sér mikinn pening þar sem þeir verða í fullu fæði. Ágætt er að miða við að vasapeningar séu að hámarki 200 Evrur. Þessir peningar verða í vörslu fararstjóra sem úthluta peningum einu sinni á dag.

Kostnaður
Eftir að ferðin hefur verið greidd niður með smeiginlegum fjáröflunum er kostnaður per. sundmann 130.000 kr. Til frádráttar frá þeirri upphæð er það sem sundmaður hefur safnað í einstaklingsfjáröflunum og eiga allir að hafa gengið upplýsingar um það. Mismunurinn greiðist um mánaðamót febrúar/mars inn á reikning 1145-05-442968, kt. 580180-0519, sem er Ferðabókin okkar í Sparisjóðnum.

TENERIFE FEGURST ALLRA Á KANARÍ

Tenerife er fögur og heillandi og hefur margt að bjóða. Eyjan er sú stærsta af Kanaríeyjunum og sker sig úr fyrir einstakt náttúrufar og veðursæld, hreinleika og góðan aðbúnað.

Tenerife er ein af sjö eyjum og liggur um 300 km út af ströndum Afríku. Tindurinn Teide, hæsta fjall Spánar, rís á miðri eyjunni og veldur því að loftslag er mismunandi á norður- og suðurhlutanum.

Norðanmegin er náttúran fjölbreyttari og gróðursælli, stórir furuskógar, bananaplantekrur og mikið blómahaf. Þar er Loro Parque dýragarðurinn sem hýsir eitt stærsta safn heims af páfagaukum og mörgæsum, "fiskabúr" yfir 3.000 tegundir sjávardýra, tígrisdýr, górillu og krókódíla frá Afríku.

Í suðurhlutanum, þar sem við verðum, skín sólin nánast alla daga ársins og þar er vinsælast að vera. Meðalhiti er 20-22°C en á svalari dögum fer hitinn vart undir 15°C og fer sjaldan yfir 30°C.

Santa Cruz er höfuðborgin og telur liðlega 225.000 íbúa. Borgin er gróðursæl og iðar af lífi. Kaffihús, veitingastaðir, göngugötur og fjölmargar verslanamiðstöðvar gera heimsókn til borgarinnar notalega og umfram allt skemmtilega.