Hagnýtt fyrir foreldra og sundmenn

Til sundmanna:

  • Mæta tímanlega á æfingar. Það er almenn kurteisi að mæta tímanlega. Ef það kemur fyrir að maður mætir of seint þá er kurteisi að láta þjálfarann vita hvers vegna.
  • Tilkynna þjálfara veikindi eða önnur forföll.
  • Áríðandi að mæta á æfingar klædd eftir veðri.
  • Mæta samviskusamlega á allar æfingar. Hver og ein æfing skiptir máli því þjálfari byggir upp æfingakerfi með langtímamarkmið í huga.
  • Setja sér markmið með hverri æfingu og klára hana 100%
  • Hafa ávallt sinn eigin vatnsbrúsa á bakkanum á öllum æfingum, til að fá sér að drekka hvenær sem þörf er á.
  • Vera með sundgleraugu sem eru rétt stillt og passa vel. Nota ávallt sundhettu. Hún ver höfuðið fyrir kulda og heldur hárinu frá svo það valdi ekki truflun.
  • Borða reglulega og hollan mat yfir daginn. Forðast að mæta svangur/svöng eða saddur/södd á æfingar. Mikil svengd dregur úr úthaldi. Saddur sundmaður er afkastalítill á æfingu.
  • Gott er að hafa með sér ávöxt til að borða strax eftir æfinguna. Á æfingu verður niðurbrot í vöðvum sem við byggjum ekki upp nema með því að borða vel og því er afar mikilvægt borða holla fæðu.


Til foreldra:

  • Mikilvægt að foreldrar sýni börnunum stuðning og áhuga á því sem þau eru að gera. Veita þeim aðhald, þ.e.a.s í að mæta á æfingar, mót og uppákomur. Þegar kemur að æfingabúðum eða keppnisferðum er gott að krakkarnir hafi safnað í ferðasjóð.
  • Fjáröflunarnefnd ásamt stjórn sér um að skipuleggja fjáraflanir fyrir sundmenn. Sjá nánar undir Fjáröflun.


Mæting

  • Hjálpa sundmönnum að skipuleggja tímann og koma ekki of seint á æfingu. Ef sundmaður er sóttur eftir æfingu eru 15 mínútur tími sem bæði sundmaður og foreldri/forráðamaður ættu að hafa í huga.
  • Munið að láta vita ef sundmenn komast ekki á æfingu.
  • Munið að láta vita strax og vitað er ef börnin komast ekki á sundmót, mikil vinna liggur á bak við hvert mót, auk þess sem kostnaður getur fallið til, s.s. skráningargjöld.
  • Athugið það er ekki skylda að keppa á sundmótum en við hvetjum sem flesta til að vera með.

 

Samskipti og upplýsingar:

Góð samskipti milli sundmanna/foreldra og þjálfara sem og upplýsingaflæði eru mikilvæg.

  • Upplýsingar er varða sundhópinn fara ýmist í gegnum tölvupóst eða birtast á heimasíðu Óðins www.odinn.is
  • Upplýsingatafla er í þjálfaraherbergi í Sundlaug Akureyrar og í anddyri Glerárlaugar; þar má finna ýmsar upplýsingar er varða vetrardagskrá, mót og lágmörk.



Þátttaka foreldra skiptir máli

Sýnum íþróttaiðkun barna okkar áhuga. Fylgjumst með og verum virk í starfi félagsins. Kynnumst ekki einungis félögum barna okkar heldur líka þeim stóra og góða hópi foreldra sem að börnunum standa.


Áfram Óðinn!

Til nýrra sundbarna og foreldra þeirra.

Örlítil ábending.

Sundfélagið Óðinn leggur mikla áherslu á heilbrigðan lífstíl og holla lifnaðarhætti hjá meðlimum sínum. Þjálfarar félagsins hvetja börnin til þess að borða hollan og góðan mat og borða mikið af ávöxtum og grænmeti milli mála og með mat. Með þessu viljum við hjálpa foreldrunum að styðja þau frá unga aldri í því að velja viturlega sínar fæðutegundir. Það er alkunna að börn fara eftir því sem þjálfarinn segir þeim. Og við hvetjum þau óspart til að hafa með sér ávöxt eða grænmeti í sundtöskunni til að borða þegar þau eru á heimleið. Allir vita hvað maður verður svangur eftir sund og því er betra að borða einn banana, gulrót eða eitthvað annað á heimleið, en að úða í sig mjólk og kexi kannski klukkustund fyrir mat þegar heim er komið því það spillir heilbrigðri matarlyst og samverustund fjölskyldunnar.

Vatn er líka okkar drykkur. Hvetjið börnin á sama hátt og við til þess að drekka vatn við þorsta. Börn sem drekka mikið vatn eru heilbrigð börn. Líkaminn er u.þ.b. 70% vatn. Þegar kemur að því að leyfa sér eitthvað gott þá er ís t.d. eitthvað sem öllum líkar.

Takmörkum sælgætis-og sætabrauðsát,(kex) og gosdrykkjaþamb!!!
Lengi býr að fyrstu gerð. - Stöndum saman um að hjálpa börnunum að velja rétt.