Lög sundfélagsins Óðins

 

 

 

1. gr.  Félagið heitir Sundfélagið Óðinn, heimili þess og varnarþing er á Akureyri.

2. gr.  Félagsmenn eru allir iðkendur félagsins og aðrir þeir sem skilað hafa inntökubeiðni í gegnum netfang/heimasíðu félagsins. Félagið getur kjörið heiðursfélaga þá sem unnið hafa fyrir félagið eða íþróttahreyfinguna um lengri tíma. Til slíkrar útnefningar þarf samþykki félagsfundar/aðalfundar.1. gr.  Félagið heitir Sundfélagið Óðinn, heimili þess og varnarþing er á Akureyri.

3. gr.  Markmið og tilgangur félagsins er að stuðla að iðkun og eflingu sundíþróttarinnar innan ramma ÍBA í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

3.1.  Halda uppi reglubundnum æfingum.

3.2.  Gefa meðlimum félagsins kost á að taka þátt í mótum og keppnum á vegum félagsins.

3.3.  Vinna að því að skapa sem hagstæðustu aðstæður til sundiðkunar fyrir félagsmenn.

3.4.  Halda uppi fræðslustarfsemi um sund og aðrar greinar eftir því sem félagið ákvarðar hverju sinni.

4. gr. 1.  Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum, þar af sex sem kosnir eru á aðalfundi til tveggja ára í senn. Stjórnin skal starfa í samræmi við lög þessi, samþykktir aðalfundar og/eða félagsfunda eftir því sem við á.

4. gr. 2.  Stjórn félagsins skal skipuð þannig:

a) Formanni er hefur umsjón með starfi félagsins, boði til stjórnarfunda, stýri þeim og komi fram út á við fyrir hönd félagsins.

   b) Varaformanni er tekur við starfsskyldum formanns í forföllum.

   c) Ritara er færir gjörðabók félagsins og annast varðveislu fundargagna.

   d) Gjaldkeri er færir bókhald og annast fjárreiður félagsins,  félagatal og           innheimtu æfinga– og félagsgjalda.

   e) Þremur meðstjórnendum er annast eigur félagsins og aðstoða gjaldkera við félagatal og skráningu þátttakenda í æfingum félagsins.

4. gr. 3. Einungis félagsstjórn getur skuldbundið félagið fjárhagslega innan þess ramma sem aðalfundur eða félagsfundir hafa markað hverju sinni.

4. gr. 4. Reikningsár félagsins skal miðast við 1. janúar til 31. desember.

5. gr.  Aðalfundur félagsins skal haldinn ár hvert eigi síðar en 10. apríl. Reikningsárið er næsta almanaksár þar á undan. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa allir fullgildir meðlimir félagsins 14 ára og eldri. Til aðalfundar skal boðað með auglýsingu með minnst viku fyrirvara. Tillögur að lagabreytingum skulu auglýstar sömuleiðis með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

 5.1. Setning og kosning fundarstjóra og fundarritara.

 5.2. Skýrsla stjórnar.

 5.3. Skoðaðir reikningar lagðir fram.

 5.4. Fjárhagsáætlun og starfsáætlun næsta árs lagðar fram.

 5.5. Ákvörðun árgjalda.

 5.6. Lagabreytingar.

 5.7. Kosningar.

    a) Formaður kosinn sérstaklega til eins árs.

    b) Fimm menn í stjórn gjaldkeri,  hennar sjötti maður, er einnig starfsmaður félagsins.

    c) Tveir varamenn í stjórn.

    d) Tveir skoðunarmenn.

5.8.  Önnur mál.

6. gr.  Stjórn félagsins ákvarðar æfingagjöld hverju sinni. Stjórn félagsins velur fulltrúa á þing ÍBA. Stjórn félagsins ræður starfsmenn til einstakra verkefna eftir því sem fjárhagur leyfir og starfsáætlun gerir ráð fyrir. Skal gerður skriflegur ráðningarsamningur við alla starfsmenn sem taka að sér langtímaverkefni s.s. þjálfun og skal sá samningur skilgreina starfsskyldur og valdsvið starfsmanna eftir því sem við á.

8. gr.  Félagið setur sér siðareglur fyrir iðkendur, foreldra og starfsmenn (stjórn og þjálfarar). Brot á siðareglum félagsins geta varðað brottvikningu úr félaginu eða leitt til útilokunar frá viðburðum á vegum félagsins.

9. gr.  Hætti félagið starfsemi eða verði slitið með samþykkt aðalfundar ber að afhenda ÍBA allar eigur þess og gögn til varðveislu. Verði félagið ekki endurreist innan tíu ára falla eignir þess, án skuldbindinga, undir ÍBA. Koma þarf fram í fundarboði aðalfundar að fjalla eigi um slit á félaginu.

10. gr.  Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf lagabreyting að hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna.

Lög þessi öðlast þegar gildi og falla þar með úr gildi öll eldri lög félagsins.

Lög þessi voru upphaflega samþykkt á aðafundi 18. október 1989, með breytingum á 6. gr. á aðalfundi 4. nóvember 1993 og aftur breytingum á 6. gr. 15. mars 2000. Enn voru gerðar breytingar á 6. gr. og einnig 8. gr. á aðalfundi 10. maí 2001 með breytingum á 5. gr. og 6. gr. lið b) og c) á aðalfundi 28. apríl 2003 og með breytingum á 5. gr. og 8. gr. lið b) og c) á aðalfundi 29.04.2004. Þá var lögum breytt 15. apríl 2015, þá 5. gr. þar sem númer voru sett á ónúmeraða liði (5.1.; 5.2.; 5.4 og 5.5.) auk þess sem bætt var við lið 5.3. Þá var tekin út úr lögum liður 6.7. ásamt 7. grein í heild sinni með viðeigandi breytingum á númeraröð greina. Á aðalfundi félagsins þann 10. apríl 2019 var 8. gr. bætt inn í lögin. Á aðalfundi félagsins þann 3. júní 2020 var 2. gr. felld á brott, 3. gr. breytt og fyrstu málsgrein 4. gr. bætt við. Einnig var ákvæði í  gr. 5.3. fellt á brott. Í 6. gr. var lið 7c) bætt við og lið 8) breytt. Þá var 9. gr. breytt. Á aðalfundi félagsins þann 25. apríl 2022 var gr. 4.1. breytt og 5. gr. 7a) einnig.

Síðast uppfært þann 25. apríl 2022.