Uppskeruhátíð fyrir sundárið 2019

Hin árlega uppskeruhátíð Óðins var haldin 11. janúar sl. í Lundarskóla fyrir fullum sal,  Árið 2019 hefur verið gott ár hjá sundfélaginu og eru iðkendur nú um 260 talsins og tóku þau þátt í 12 sundmótum á sl. ári, ásamt því að nokkrir afreksmenn félagsins hafa náð afar góðum árangri hér á landi og erlendis þá m.a. í landsliðsverkefnum.
Ingi Þór Ágústsson fór yfir sundárið og þá flottu hluti sem hann er að gera með iðkendum og fór yfir æfingarhringi og crossfit sem Afreks- og úrvalshópur eldri og yngri eru að stunda. Síðasta haust var farið á SH mótið, IM25 og Fjölnismótið þar sem keppendur Óðins áttu 178 stungur og voru bætingar í 86,7% sundum á þessum mótum. Frábær árangur! Einnig setti hann upp myndrænt á korti af Íslandi hversu langt í kílómetrum talið iðkendur hafa synt á æfingum frá haustinu og til áramóta og gaf það flotta mynd af því hversu mikið er lagt á sig á öllum æfingum.
Dýrleif Skjóldal fór yfir sundskólann og það flotta starf sem er verið að sinna þar og mikilvægi þess að koma yngstu krökkunum að í sundskólann, og að það sé sorgleg staða að vera með langan biðlista til þess að koma börnunum ofan í og kenna þeim að synda. Allir iðkendur sundskólans fengu viðurkenningarskjal sem þeim var afhent og tekin mynd af þessum flotta hóp.
Viðurkenningar voru veittar fyrir:
  • Framtíðarhópur - Ástundun: Magni Rafn Ragnarsson
  • Framtíðarhópur - Framfarir í sundtækni: Rakel Hjaltadóttir
  • Úrvalshópur - Ástundun: Elín Rósa Ragnarsdóttir
  • Úrvalshópur - Framfarir í sundtækni: Sandra Fannarsdóttir
  • Krókódílahópur - Framfarir í sundtækni: Soffía Margrét Bragadóttir
  • Krókódílahópur - Stigahæsta sund - konur: Kristín Emma Jakobsdóttir
  • Krókódílahópur - Stigahæsta sund - karlar: Bergur Unnar Unnsteinsson
Afreksviðurkenningar
  • Mesta bæting kvenna - Embla Karen Sævarsdóttir
  • Mesta bæting karla - Örn Kató Arnarsson
  • Fyrirmyndar sundmaður - Katrín Magnea Finnsdóttir
  • Sundkona Óðins - Bryndís Rún Hansen
  • Sundkarl Óðins - Baldur Logi Gautason
Akureyrarbær hefur unnið að forgangsröðun varðandi nýbyggingu íþróttamannvirkja undanfarin misseri og birtist skýrsla þess efnis á haustmánuðum sl.. Þar var bygging sundlaugar sett í sjöunda sæti sem eru viss vonbrigði. Stjórn Óðins brást við skýrslunni með greinargerð sem send var til allra bæjarfulltrúa en hún hefur að mestu verið ósvöruð sem er bagalegt. Sundfélaginu vantar sárlega betri æfingaraðstöðu og hefur félagið þurft að aflýsa mótum vegna frosthörku og einnig haft unga krakka lengi á biðlista sem komast ekki að. Félagið hefur skorað á bæjaryfirvöld að að flýta byggingu 50 m. innilaugar á Akureyri og tilkynningunni frá félaginu kemur fram að aðstaða félagsins sé langt frá því að vera viðunandi og leitt að þurfa að fresta ítrekað æfingum og mótum vegna veðurs, auk þess sem iðkendum gefst ekki kostur að æfa í sambærilegri laug og sundmót fara fram í. Það er viss hömlun að geta ekki æft í 50 m. laug þegar 50 m. sundtímabilið hefst eftir áramótin. Þá hafa iðkendur sundfélagsins einnig ekki tækifæri til þess að keppa á Íslandsmóti í heimabyggð þar sem Íslandsmeitaramótin fara fram á vetrarmánuðum og því innandyra. Það er því óskiljanlegt að ný sundlaug færist aftur og aftur neðar á forgangslista bæjaryfirvalda á Akureyri.
Sundfélagið fékk í fyrsta sinn allar brautir æfingarlaugarinnar til afnota milli kl. 17.00-19.00 fjóra daga vikunnar og erum við afar þakklát með þá breytingu og hefur gagnast sundhópnum virkilega vel. Í lok árs voru settir upp læstir skápar fyrir iðkendur Óðins til þess að geyma þann búnað sem þau hafa til þessa geymt í netum sínum niður í kjallara sundlaugarinnar.
 
Kæru iðkendur, þjálfarar, stjórn, foreldrar, forráðamenn og aðrir velunnarar við þökkum fyrir frábæra mætingu á uppskeruhátíðina. Það er því einlæg ósk okkar allra til Akureyrarbæjar að aðstoða okkur við að efla starf Óðins enn frekar og gera það sem þau geta til þess að við fáum fleiri klukkutíma í Glerárlaug og getum þannig komið til móts við þá miklu aðsókn, og þau forréttindi að kenna börnum að synda!
Áfram Óðinn!
 
 
 
Fleiri myndir frá uppskeruhátíðinni er að finna undir "Myndir" hér efst á síðunni.