Tvö gull og tvö silfur

Bryndís Rún Hansen lauk keppni á norska unglingameistaramótinu í dag.  Hún vann til verðlauna í öllum greinum sínum, tvö gull og tvö silfur, auk boðsunda.

Eins og fram hefur komið þá byrjaði hún mótið með nýju Íslandsmeti og gullverðlaunum í 100 m flugsundi á tímanum 1:00,81. Einnig vann hún gullverðlaun í 50 m flugsundi á tímanum 27,26 en fór í undanrásum á 27,07, sem er hársbreidd frá nýju Íslandsmeti hennar. Í 50 m skriðsundi vann hún silfur, fór þar undir 26 sekúndur í fyrsta sinn á tímanum 25,97 í undanrásum. Loks synti hún 100 m skriðsund til silfurverðlauna og besti tími hennar þar var 56,98. Þá vann félagið hennar, Bergensvömmerne, góða sigra í boðsundi. Stelpurnar unnu töfaldan sigur og strákarnir kláruðu mótið með norsku unglingameti.

Næsta verkefni hjá Bryndísi er með landsliði Íslands sem þátt tekur í Evrópumeistaramótinu í 25 m laug en það er haldið í Póllandi að þessu sinni.