Sundkona og sundkarl Akureyrar árið 2018 eru Elín Kata Sigurgeirsdóttir og Snævar Atli Halldórsson!

Sundkona og sundkarl Akureyrar árið 2018 eru Elín Kata Sigurgeirsdóttir og Snævar Atli Halldórsson!

Uppskeruhátíð Óðins fór fram 12. janúar en þar var farið yfir árangur liðins árs og ýmsir sundmenn heiðraðir. Að lokum var svo tilkynnt um val á sundfólki Akureyrar 2017 sem eru þau Elín Kata og Snævar Atli.

Á árinu 2018 keppti Elín á fjölmörgum mótum bæði innanlands og utanlands. Elín keppti fyrir hönd Óðins á báðum Íslandsmeistaramótunum í sundi á árinu 2018. Í 50m laug keppti Elín í fjórum greinum og komst hún í úrslit í þremur þeirra. Í 25m laug keppti hún í fimm greinum og komst hún inn úrslit í fjórum og greinum og náði gullverðlaunum í 200m flugsundi á nýju Akureyrarmeti og silfurverðlaunum í 200m fjórsundi. Elín Kata tók einn þátt í einu landsliðsverkefni á seinasta ári þegar hún synti fyrir Íslands hönd á Norðurlandameistaramótinu. Þar keppti hún í þremur greinum.

Aðalsund Snævars eru bringusund og fjórsund. Snævar keppti fyrir hönd Óðins á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 50m braut sem fór fram í apríl á seinasta ári. Þar keppti hann í sex greinum og komst í úrslit í fjórum þeirra. Þar náði hann silfurverðlaunum í 200m bringusundi á nýju Akureyrarmeti og bronsverðlaunum í 100m bringusundi.

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir stigahæstu sund karla og kvenna í flokki fatlaðra en þar voru þau Arndís Atladóttir og Fannar Logi Jóhannesson hlutskörpust. Í sama flokki fengu viðurkenningu þeir Axel Birkir Þórðarson fyrir ástundun og Rúnar Smári Ásgeirsson fyrir mestu framfarir í sundtækni.

Í Úrvalshópi fengu viðurkenningu fyrir ástundun Lana Harely og Kolbrún Ósk Vilhjálmsdóttir fyrir mestu framfarir í sundtækni. Í Framtíðarhópi var það Jóhannes Þór Helgason sem fékk viðurkenningu fyrir ástundun og Katrín Lóa Ingadóttir fyrir mestu framfarir í sundtækni.

Í afrekshópi fengu Sigurjóna Ragnheiðradóttir viðurkenningu fyrir mesta bætingu kvenna, Baldur Logi Gautason fyrir mesta bætingu karla og Elín Kata Sigurgeirsdóttir fékk viðurkenningu sem fyrirmyndar sundmaður og félagi Óðins.

Þeir einstaklingar sem settu Akureyrarmet á seinasta ári fengu einnig sérstök viðurkenningarspjöld, en þeir sem settu Akureyrarmet á árinu 2018 voru; Elín Kata Sigurgeirsdóttir, Snævar Atli Halldórsson og Þura Snorradóttir.

Þrír sundmenn Óðins fengu afhentan sérstakan styrktarsamning frá Speedo en það voru þau Bergur Unnar Unnarsson, Kristófer Óli Birkisson og Rebekka Sif Ómarsóttir sem hlutu þá í ár.

Auk þess fengu þeir einstaklingar sem unnu Íslandsmeistaratitla á árinu viðurkenningar en Óðinn átti fjóra Íslandsmeistara á árinu 2018 sem samanlagt unnu til fimm Íslandsmeistaratitla. Þeir sem hömpuðu Íslandsmeistaratitlum á seinasta ári eru; Bergur Unnar Unnsteinsson, Elín Kata Sigurgeirsdóttir, Fannar Logi Jóhannesson og Þura Snorradóttir.

Að lokum viljum við þakka öllum þeim sem mættu á uppskeruhátíðina fyrir skemmtilega samveru og við óskum öllum sundmönnum Óðins góðs gengis á árinu 2019!