Sundárið fer vel af stað með nýjum þjálfara

Ragga mætt á bakkann.
Ragga mætt á bakkann.

Æfingar elstu hópa hjá Sundfélaginu Óðni eru nú hafnar undir stjórn nýs yfirþjálfara, Ragnheiðar Runólfsdóttur. Ragnheiður var ráðin til starfa hjá félaginu í vor og ljóst að mikill fengur er að komu hennar fyrir sundstarfið á Akureyri.

Ein mesta afrekskona Íslands
Ragnheiður er sem kunnugt er ein mesta afrekskona sem Ísland hefur átt í sundi og eina sundkonan sem útnefnd hefur verið Íþróttamaður ársins. Það sæmdarheiti hlaut hún fyrir árið 1991 en það ár náði hún meðal annars frábærum árangri á á Evrópumeistaramótinu í Aþenu er hún varð í sjöunda sæti í 200 m bringusundi. Tvívegis keppti hún á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd, í Seoul árið 1988 og Barcelona 1992. Heims- og Evrópumeistaramótin eru fjölmörg og þá hafa henni á ferlinum hlotnast fjölmarga viðurkenningar, var m.a. valin Íþróttamaður Akraness alls sex sinnum.

Góður árangur í þjálfun
Hin síðari ár hefur Ragga helgað sig sundþjálfum í heimabæ sínum Akranesi og þá hefur hún starfað talsvert fyrir sundhreyfinguna. Einnig þar hefur nún náð eftirtektarverðum árangri og m.a. verið útnefnd unglingaþjálfari ársins hjá Sundsambandi Íslands. Hún hefur farið sem fararstjóri og þjáfari í mörg landsliðsverkefni og á síðasta sundþingi var hún sæmd gullmerki sambandsins fyrir framlag sitt sitt sundsins, í laug og utan hennar.

Börkur Þór Ottósson, formaður Óðins, segir mikla ánægju ríkja innan félagsins með ráðningu Ragnheiðar og þess vænst að uppgangstímar séu framundan. Um 260 iðkendur æfa hjá félaginu en æfingar hjá yngri hópum fara af stað undir næstu mánaðamót.

Þess má geta að skemmtilegt viðtal er við Röggu á bls. 6 í Akureyri vikublaði sem kom út í dag.