Sprengimót Óðins haldið í blíðuveðri

Sprengimót Óðins var haldið í Sundlaug Akureyrar um helgina og gekk vel í sannkölluðu blíðuveðri. Keppendur voru um 75 talsins frá 3 félögum. Flestir voru frá Óðni og Akranesi auk keppenda frá UMSB. Við vorum einstaklega ánægð með gestina okkar en þó verður að segja að það voru okkur í Óðni veruleg vonbrigði að ekki skyldu fleiri félög heiðra okkur með nærveru sinni á þessari fallegu helgi.

Ágætur árangur náðist á mótinu en þar eru lögð áhersla á keppni í styttri sundgreinum. Margir af þeim yngri voru að bæta tíma sína en ekki er hægt að búast  við miklu metaregni svona í upphafi tímabilsins þegar sundmenn eru að auki í mjög þungum æfingum. Þannig var haldin sameiginleg tveggja tíma sundæfing allra keppenda áður en keppni hófst báða mótsdagana sem þjálfarar Óðins og ÍA skipulögðu í sameiningu. Því var helgin í raun blanda af læfingabúðum og keppni. Mæltist þessi nýbreytni vel fyrir en væntanlega hafa margir sundmenn verið fegnir að leggjast á koddann í gærkvöld. Við í Óðni viljum þakka vinum okkar í ÍA kærlega fyrir helgina og þá ræktarsemi sem þeir sýna okkur með að mæta á mótið á hverju ári. Myndir eru væntanlegar.

Úrslit frá Sprengimóti Óðins 2011