Samantekt frá KR mótinu sl. helgi

Gullmót KR fór fram nú um síðastliðna helgi. Yfir 600 sundmenn tók þátt í þessu móti frá öllu landinu. Einnig mættu til leiks lið frá Danmörku og Finnlandi. Óðinn ferðaðist með stóran hóp til Reykjavíkur og var það full rúta af kátum krökkum sem lagði af stað snemma föstudagsmorguns.

Góður árangur náðist hjá sundfólkinu okkar.
Bryndís Bolladóttir er í miklu stuði þessa dagana og er að uppskera eftir miklar og erfiðar æfingar í vetur. Náði hún þeim frábæra árangri að synda undir gildandi Íslandsmeti í telpnaflokki í 50 metra flugsundi. Hún á það met sjálf en hún setti það í síðasta mánuði á Reykjavík International Games. Hún lét þetta nú ekki vera sitt eina afrek á þessu móti, því hún náði glæsilegum árangri í 100 metra skriðsundi og öðlaðist þar með rétt til að taka þátt í EYOF leikunum í sumar sem eru Ólympískir æskuleikar haldnir í Póllandi. Bryndís setti mótsmet í fjórum af þeim sex greinum sem hún keppti í. Frábær árangur hjá þessari bráðefnilegu sundkonu okkar.

Óðinn hefur áður átt fulltrúa á EYOF, en það voru þau Bryndís Rún Hansen og Sindri Þór Jakobsson sem nú æfa bæði og búa í Noregi. Það er mikil og góð reynsla að komast á þessa leika en heiti hátíðarinnar er Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar og er ”Fair Play” eða háttvísi eitt af megin einkunnarorðum hátíðarinnar. Mikið er lagt upp úr því að þetta sé skemmtun, og þátttakendur kynnist ungu fólki frá öðrum löndum Evrópu.

Aðrir keppendur stóðu sig einnig vel og vann Óðins sundfólkið til fjölda verðlauna. Sundmenn Afrekshópsins stefna á að ná toppárangri á meistaramótinu í apríl, en voru þó að bæta sig nú og vinna til verðlauna fyrir félagið sem er mikilvægt. Yngsta sundfólkið var að stíga sín fyrstu skref í sundkeppnum og stóðu þau sig öll frábærlega. Við vorum með sundfólk allt frá aldrinum 8 ára til 19 ára.


Efniviðurinn er nógur og þurfum við að hlúa vel að þessu frábæra unga íþróttafólki okkar. Framtíðin lofar góðu hjá okkur í Óðni.

Kveðja Yfirþjálfari