RIG 2022

Úrslit og niðurstaða sundmanna sundfélagsins Óðins

RIG 2022 var haldið í Laugardalslauginni helgina 28. – 29. Janúar 2022.  Sundfélagið Óðinn náði þeim frábæra árangri að eiga 22 sundmenn sem höfðu náð lágmörkum fyrir mótið.  Því miður þá misstu fjórir sundmenn af mótinu vegna óværu sem geysar víst enn um heimsbyggðina.  Óðinn fór því af stað fimmtudaginn 27.janúar með 18 sundmenn til keppni í fjórum greinum hver eða samtals 72 greinum í heildina.  Ferðin suður gekk mjög vel og eftir stopp í mat í Borgarnesi voru það þreyttir en ákafir sundmenn sem lögðust til hvílu á Hótel Cabin.  Föstudagsmorgun eftir morgunmat var stutt æfing áður en hádegismatur og hvíld tók við til að undirbúa sig undir fyrsta mótshlutann.

Mótið var haldið með breyttu sniði og var upphitun skipt upp í þrennt til að rúmast innan gildandi samkomutakmarkana.  Þannig var það alla helgina og í úrslitahlutunum var keppendum skipt í upphitun eftir því í hvaða grein þeir voru að keppa.

Í heildina voru það svo yfir 100 sund sem keppendur Óðins náðu að keppa í þessa helgi.  Af þessum ríflega 100 stungum voru bætingar í 92 af þeim.  Mestu bætingunni  náði Kristinn Viðar Tómasson í 100m skriðsundi – hann syndi á tímanum 1.01.71 en átti fyrir í 50m lauginni 1.14.38.

Þeir sem komust í úrslit á þessu móti voru fjölmörg eða Naomi Arnarsdóttir, Örn Kató Arnarson, Kristófer Óli Birkisson, Halla Rún Fannarsdóttir, Sandra Rut Fannarsdóttir, Eydís Arna Ísaksen, Ólöf Kristin Ísaksen, Stefán Grétar Katrínarson, Bríet Björk Pálsdóttir, Embla Karen Sævarsdóttir og Kristinn Viðar Tómasson.  

Þau sem unnu til verðlauna voru Eydís Arna Isaksen silfur í 50m bringusundi, Stefán Grétar Katrínarson brons í 50m bringusundi, Örn Kató Arnarsson silfur í 200m bringusundi, Halla Rún Fannarsdóttir silfur í 50m flugsundi og Katrín Lóa Ingadóttir brons í 400m skriðsundi.  

Frábær árangur náðist á þessu móti heild yfir hjá sundfólki Óðins og ber að hrósa þeim svakalega fyrir þetta mót.  Það hafa verið erfiðar æfingar undanfarið og því virkilega gaman að sjá hversu vel þau eru að uppskera eftir þær.

Virkilega vel var haldið utan um keppendur og þjálfara af þeim Fannari og Arnari fararstjórum og bílstjórum ferðarinnar og við þökkum þeim svakalega mikið fyrir að stjana svona vel við okkur í ferðinni.

Eftir mótið þá var veðurútlit ekki gott og því var ákveðið að fresta för heim um einn dag.  Hópurinn skellti sér út að borða í Mathöllinni Grafarvogi áður en farið var í keilu.  Virkilega skemmtilegt þar sem mikið fjör var og mikil barátta um að vinna sér inn sem mestu stigin.

Heild yfir frábær ferð, góður árangur, frábær fararstjórn og skemmtilegt að sjá hversu vel krakkarnir eru að bæta sig, bæði í lauginni sem og utan hennar.  

 

Yfirþjálfari