ÓÐINN 50 ÁRA.

Í dag erum við 50 ára og í tilefni þess verður um helgina haldið svokallað Sprettsundsmót. Þar verður sprellað og haft gaman. Mótið verður með sérstökum hætti þetta árið þar sem félagið fagnar 50 ára afmæli. Gamlar kempur munu spreyta sig á mótinu í tilefni afmælisins.
"Gamla" fólkið ætlar síðan að hittast í Lóni á laugardagskvöldið og skiptast á skemmtilegum sögum og borða góðan mat.
Set hér með inn gamla frétt sem Halldór Arinbjarnarson skrifaði í tilefni 45 ára afmælis okkar. Hún stendur alveg fyrir sínu á þessum tímamótum og lítið breyst sl. 5 ár hvað varðar áherslurnar.

Sundfélagið Óðinn er 45 ára í dag en félagið var stofnað á þessum degi árið 1962. Ekki verður annað sagt en að félagið beri aldurinn vel og hvergi ellimerki að sjá.

Í dagblaðinu Degi 10. október árið 1992, þegar félagið er 30 ára, rekur Jóhann G. Möller sögu Óðins í grófum dráttum. Þar kemur fram að sund hafði verið æft undir merkjum Þórs og KA en óánægja var hjá sundfólkinu sjálfu hvernig að því var staðið. Krakkarnir tóku sig því til og stofnuðu eigið sundfélag. Samantekt Jóhanns er fróðleg og skemmtileg lesning og ljóst að stundum hefur verið á brattann að sækja af ýmsum orsökum.

Ánægjulegt er til þess að vita að á 45 ára afmælinu stendur félagið traustum fótum og starfsemin með öflugasta móti. Iðkendur hafa aldrei verið fleiri og gætu reyndar verið enn fleiri ef meira rými væri fyrir hendi í sundlaugum bæjarins. Sá þáttur hamlar helst starfseminni um þessar mundir. Er sorglegt til þess að vita að bæði séu biðlistar af krökkum sem langar að byrja æfa sund og að þeir sem fyrir eru fái ekki það rými sem þeir þurfa til að ná árangri. “...en forráðamenn íþróttamála í bænum hafa ekki enn gert sér grein fyrir því að olnbogabarnið sem skreið af stað 12. september 1962 hefur nú slitið barnsskónum,” skrifar Jóhann Möller meðal annars í ágripi af 30 ára sögu Óðins og gætu sennilega forsvarsmenn félagsins í dag tekið undir þau orð.

Gaman væri að vita hversu mörg sundtök liggja að baki á þessum 45 árum. Þau eru ófá og eiga eftir að verða miklu fleiri því framtíðin er björt á þessum tímamótum. Óskum sjálfum okkur til hamingju með afmælið.