Líf og fjör á uppskeruhátíð - Bryndís Rún sundmaður Akureyrar

Árleg uppskeruhátíð Óðins var haldin í kvöld. Þar var farið yfir árangur síðasta árs, viðurkenningar veittar og sundmaður Akureyrar útnefndur. Þar varð hlutskörpust Bryndís Rún Hansen og er hún, líkt og fyrri ár, vel að titlinum komin eftir frábæran árangur.

Viðurkenningar veittar
Í krókódílahópi, sem er eldri hópur félagsins fyrir fatlaða, fengu Lilja Rún Halldórsdóttir og Vilhelm Hafþórsson viðurkenningar fyrir stigahæstu sund karla og kvenna. Í sama hópi fékk Breki Arnarsson viðurkenningu fyrir ástundun og Axel Birkir Þórðarson fyrir framfarir í sundtækni.

Í afrekshópi fengu viðurkenningu fyrir mestu bætingu á árinu Nanna Björk Barkardóttir og Birkir Leó Brynjarsson. Stigahæsta sund karla átti Oddur Viðar Malmquist og stigahæsta sund kvenna Bryndís Rún Hansen.

Í yngri hópum fengu viðurkenningu fyrir ástundun Þórkatla Björg Ómarsdóttir, Ólavía Klara Einarsdóttir og Snævar Atli Halldórsson og fyrir framfarir í sundtækni þær Birta Huld Kristjánsdóttir og Embla Sólrún Einarsdóttir.

Glæsilegur árangur Bryndísar á árinu

Bryndís RúnÁrangur Bryndísar á árinu 2011 var sér sérlega góður og hennar besti til þessa. Má m.a. telja fimm Íslandsmeistaratitla og fimm Íslandsmet. Hún flutti sem kunnugt er til Bergen í janúar í fyrra og á norska neistaramótinu vann hún einn sigur í fullorðinsflokki og er margfaldur meistari i unglingaflokki.

Bryndís keppti með A-landsliði Íslands á árinu og náði fínum árangri. Á smáþjóðaleikunum í sumar vann hún til þriggja verðlauna og á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug í Póllandi nú í desember setti hún þrjú Íslandsmet, komst í undanúrslit og hafnaði í 13 sæti í 50 m flugsundi.

Markmið Bryndísar á árinu 2012 er að halda áfram að bæta sig. Stefnan er sem fyrr sett á verðlaun á íslensku og norsku meistaramótunumn, á áframhaldandi sæti í landsliði Íslands og kappkosta að keppa fyrir Óðins hönd á mótum hér heima. Ekki er útilokað að Bryndís vinni sér keppnisrétt á Ólympíuleikum í London í sumar en helsta markmið hennar er að keppa á Ólympíuleikum í Rio De Janeiro 2016.

Myndir Sævars frá kvöldinu