Gleði á Nýársmótinu

Í gær fóru krakkar frá Óðni til Reykjavíkur til að keppa á Nýársmóti fatlaðra. Eins og við var að búast stóð hópurinn sig með miklum sóma.

Nýársmót fatlaðra er fyrir börn og unglinga 17 ára og yngri og er viðburður sem gleymist seint þeim er upplifa hann. Þarna eru saman komnir bæði reyndir sundmenn og byrjendur, sem er leyft að synda með hjálpartæki og þjálfara sinn við hlið sér. Allir fá þátttökuverðlaun og eru einnig veitt verðlaun eftir stigaútreikningum í hverri sundgrein. Sjómannabikarinn er svo veittur fyrir besta afrekið á mótinu sem reiknað er út frá heimsmeti í fötlunarflokki viðkomandi. Að þessu sinni var það Kolbrún Stefánsdóttir úr Firði sem hlaut bikarinn, en Vilhelm Hafþórsson í Óðni hefur verið handhafi hans undanfarið ár.

Að venju stóð Óðins-hópurinn sig mjög vel og vakti verðskuldaða athygli. Krakkarnir voru almennt að bæta tímana sína og gaman var að fylgjast með árangrinum sem æfingarnar höfðu skilað hjá þeim.

Verðlaunahafar
Kristján Logi Einarsson kom heim með 2 bronsverðlaun fyrir 50m bringusund og 50m flugsund. Lilja Rún Halldórsdóttir vann til silfurverðlauna fyrir 50m bringusund.

Úrslit frá mótinu

"Ég þekki þig"
Og í lokin ein skemmtidaga frá Dillu: "Þegar við vorum á leið að ráspöllunum þá stoppaði ein úr hópnum fyrir framan forseta Íslands og frú Dorrit, horfði á þau  og sagði: "Hæ, ég þekki þig!“ „Já, er það,“ svaraði forsetinn af stillingu og brosti í kampinn. Svo leit hún á mig og ég sagði: "Já þetta er forseti Íslands.“ Þá leit hún aftur á hann og brosti sínu fallega brosi og sagði „Já Ólafur Ragnar Grímsson,“ rétti svo fram hendina og sagði „Gleðilegt nýjár“ tók í hendina á þeim og hélt svo rakleitt af stað til að stynga sér  til sunds."