Fyrsti keppnisdagurinn á ÍM 25 byrjar vel

Eins og þið flest vitið byrjaði för krakkanna okkar heldur skrautlega. Eftir að flugi var aflýst upp úr kl 18 var ljóst að nú þyrfti að bregðast hratt við því að ekki væri hægt að ná tímanlega í fyrsta mótshluta nema farið yrði landleiðina í borgina. Á réttum klukkatíma voru Hópferðarbílar Akureyrar búnir að tryggja okkur bíl og bílstjóra og okkur ekkert að vanbúnaði með að leggja í hann. Ferðin gekk vonum framar því meðan það var verið að vinna að því að finna út úr bílamálum leit út fyrir að ekki yrði hægt að keyra Öxnadalinn, en bara rétt í því sem lagt var af stað var Öxnadalsheiðin opnuð. Við þökkum vinum okkar á Hópferðabílum kærlega fyrir að bregðast svona snögglega við.

Þetta breytta ferðaplan virðist þó ekki hafa mikið truflað okkar ágæta sundfólk því Óðins fólk átti góðan dag í Hafnafirðinum.


Báðar boðsundssveitirnar okkar syntu til úrslita og stóðu sig vel.


Birgir Viktor Hannesson bætti Akureyrarmetin í 50 og 100 metra bringusundi.  Tíminn sem hann synti á í 100 metra bringusundi tryggði honum þátttökurétt á NMU sem fer fram í Finnlandi í Desember. Einnig vann hann til bronsverðlauna í 100 metra bringusdundi og 200 m fjórsundi.

Bryndís Bolladóttir var í hörku baráttu í 50 m skriðsundi.  Hún bætti Akureyrarmetið í telpnaflokki og synti glæsilega.  Einnig gerði hún sér lítið fyrir og tvíbætti Akureyrarmetið í 100 m skriðsundi.  Frábær sundkona þarna á ferð.


Aðrir sem syntu til úrslita í dag voru þau Júlía Ýr Þorvaldsdóttir, Rakel Baldvinsdóttir og Oddur Viðar Malmquist.

Þeir sem skipuðu boðsundssveitirnar okkar voru þær Bryndís Bolladóttir, Rakel Baldvinsdóttir, Guðrún Baldvinsdóttir og Júlía Ýr Þorvaldsdóttir.  Drengirnir voru þeir Birgir Viktor Hannesson, Freysteinn Viðar Viðarsson, Oddur Viðar Malmquist og Birkir Leó Brynjarsson.


Það líður öllum vel og flestir sáttir við daginn.  Góður andi er í hópnum og allir staðráðnir í því að standa sig vel
Áfram Óðinn.