Fréttapistill frá Breka um dvölina í Kanada í vetur

Þar sem að heimför til Íslands nálgast óðfluga held ég það sé rétt að koma með smá fréttir af því hvað ég hef verið að brasa undanfarna mánuði.

Í október 2016 flutti ég til Kanada í litinn bæ sem kallast Fredericton í New Brunswick fylki. Þar æfði ég með sundfélaginu FAST (Fredericton Aquatic swim team) undir handleiðslu Marta Belsh. Það voru mikil viðbrigði að byrja æfa hér í Kanada þar sem að æfingarnar voru öðruvísi en ég var vanur heima.  Fyrstu helgina mína í Fredericton kom Ólympíufarinn Martha McCabe til okkar og hélt æfingabúðir fyrir okkur þar sem hún ræddi við okkur um sundlífið frá hinum ýmsum sjónarhornum. Í byrjun nóvember tók ég síðan þátt í æfingabúðum fyrir fatlaða í Sussex undir handleiðslu Janet Dunn sem er yfirflokkari hjá Swim Canada og hefur áratuga reynslu af þjálfun fatlaðra. Þær æfingabúðir voru mér mjög mikilvægar og lærði ég þar margt sem hefur nýst mér í að bæta mig mikið síðastliðna mánuði. Meðal þeirra sem voru í æfingabúðunum var Danielle Dorris sem þá var nýlega búin að keppa á Ólympíuleikum fatlaðra í Ríó.

Í nóvember kom ég síðan heim til að keppa á IM25. Á meðan ég bjó í Fredericton tók ég þátt i þó nokkrum mótum og þegar ég flutti hingað til Toronto í byrjun febrúar hafði ég bætti mig í öllum þeim greinum sem ég hafði keppt í og bætti við mig greinum sem ég var ekki vanur að synda eins og 50 metra flugsund. Einnig hafði ég synt undir öllum skráðum fylkismetum í New Brunswick í fötlunarflokknum mínum S7 en þar sem ég er ekki kanadískur ríkisborgari fengust þau met ekki skráð. Auk þess að hafa verið að æfa sund stundaði ég líka enskunám í University of New Brunswick.

Í byrjun febrúar flutti ég síðan til Toronto þar sem ég æfi með Variety Village Flames sem er sundfélag einungis með fólki sem er með einhverskonar fötlun. Auk þess ađ æfa međ variety village hef ég veriđ ađ stunda enskunám viđ University of Toronto. Eru yfirþjálfarar mínir Ryan Jones og Katherine Ambos.

Í byrjun mars keppti ég á mínu fyrsta móti með Variety Village, Long course spring provincials. Um seinustu helgi, helgina 31. mars til 2. apríl keppti ég á CAN AM sem er alþjóðalegt mót fyrir fatlaða sem haldið er til skiptis í Kanada og í Bandaríkjunum en var núna haldið í Windsor í Kanada. Fyrir mótið náði ég lágmörkum í 100 og 400 metra skriðsundi og svo keppti ég í 50 metra skriðsundi og 100 metra bringusundi sem bonus events. Á mótinu tvíbætti ég 50 og 400 metra tímana mína, fyrst í undanrásum og svo í úrslitum. Í 100 metra skriðsundi bætti ég svo tímann minn í undanrásum en tókst ekki að bæta hann aftur í úrslitum. Í 100 metra bringusundi var ég því miður dæmdur úr leik fyrir það að gera klippitak með fótunum, sem er að gera skriðsundstak með öðrum fætinum. Bringusund er grein sem ég var ekki vanur að synda heima en hef þó lagt nokkra áherslu á hér en hef þó verið í vandræðum með að stjórna fótatökunum. Það er því alltaf eitthvað til að bæta sig í þrátt fyrir að hlutirnir gangi mjög vel. Í lok apríl er síðan komið að heimkomu og hlakka ég til að sjá alla aftur.

CAN AM hópurinn ásamt þjálfaranum okkar Ryan Jones.