Frá yfirþjálfara

Í fyrradag var tekið fyrir erindi frá mér í Frístundaráði Akureyrarbæjar um ósk um aukinn tíma í hinu "nýja" laugarkari í sundlaug Akureyrar. Ósk mín fólst í því að láta loka laugarkarinu fyrir almenning fjóra daga í viku á milli 17 - 19 (mánudag, þriðjudag, fimmtudag og föstudag). Skemmst er að segja frá því að erindið var samþykkt og nú hefst ferli við að auglýsa þessar breytingar. Auglýsing á að birtast í Dagskránni í dag og á morgun ætlum við að hefja æfingar í þá allri lauginni.

Það er ekki hægt að lýsa því hversu mikið hagsmunamál þetta er fyrir sundfélagið. Það hefur alveg tekið á að hafa þetta marga á æfingum þrátt fyrir að hafa notað fimm brautir. Með þessu móti tekst okkur að hagræða þannig á brautir á æfingum að við ættum að geta enn frekar náð okkar markmiðum á þessu sundári.

Það er von mín að við leggjumst öll á eitt að tala við einstaklinga í kringum okkur og útskýra fyrir þeim afhverju við erum að þessu. Með því að kynna okkar sjónarmið er það mín trú að þeir sem eru mótfallnir þessu snúist með okkur og skilji þörf sundfélagsins fyrir þessum breytingum.

Bestu kveðjur af sundlaugarbakkanum,

Ingi Þór Ágústsson, 
Yfirþjálfari