Fjórir sundmenn Óðins tóku þátt í Framtíðarhópsverkefni í Færeyjum

Frá vinstri: Benedikt Már, Alexander Reid, Jón Ingi og Magni Rafn
Frá vinstri: Benedikt Már, Alexander Reid, Jón Ingi og Magni Rafn

Fjórir sundmenn frá Óðni tóku þátt í Framtíðarhópsverkefni á vegum SSÍ til Færeyja þar sem efnilegir sundmenn frá Íslandi kepptu gegn jafnöldrum sínum frá Færeyjum. Þeir sem voru valdir í hópinn frá Óðni voru Alexander Reid McCormick, Benedikt Már Þorvaldsson, Jón Ingi Einarsson og Magni Rafn Ragnarsson. Flottur árangur hjá strákunum og skemmtileg byrjun á nýju sundári. Það má líka nefna að Jón Ingi bætti tvö Akureyrarmet í aldursflokknum 13-14 ára í 200m baksundi og 200m fjórsundi.

 

 Hér fyrir neðan er ferðasaga, tekið af Instagram síðu SSÍ (Sundsamband Íslands)

Frá 5. til 8. september fór Framtíðarhópur SSÍ í ferð til Færeyja. Markmiðið var að styrkja tengslin milli Íslands og Færeyja og skapa frábært verkefni fyrir besta aldursflokkasundfólk landsins.

Föstudagurinn hófst með sameiginlegri æfingu, þar sem sundfólkið frá báðum þjóðum sameinaðist undir leiðsögn okkar frábæru þjálfara. Að æfingu lokinni borðaði hópurinn saman í sundlauginni.

Laugardagurinn var sérstaklega skemmtilegur, með sundmóti sem var stigakeppni á milli þjóðanna. Ísland sigraði með 564 stigum gegn 267 stigum Færeyja!  Sigurvegarinn varðveitir bangsann Jónas Í Jákopsstovu næsta árið, eða þangað til þjóðirnar hittast aftur í september á Íslandi. Um kvöldið var haldin kvöldvaka með mat og leikjum, þar sem sundfólkið bjó til Kahoot spurningakeppnir um löndin okkar, og Rúni, landsliðsþjálfari Færeyja, stjórnaði spurningakeppni um sundlaugar í löndunum.

Sunnudagurinn byrjaði með sameiginlegri tækniæfingu og endaði á nokkrum ferðum í rennibrautinni og á stökkpallinum. Ferðin lengdist óvænt þegar flug hópsins á sunnudegi var aflýst, en auka dagurinn í Þórshöfn var nýttur til góðra samverustunda.

Sérstakar þakkir til frábæra þjálfarateymisins – Bjarney, Daníel, Riccardo og Sveinbjörn – sem gerðu ferðina enn betri.

Kærar þakkir til vina okkar í Færeyjum fyrir að taka vel á móti okkur og sérstakar þakkir til NATA fyrir að styrkja þetta verkefni!