Eftir Akranesleikana. Fréttapistill.

Akranes séð útfrá fararstjóra/dómara.

Hitti hópinn í Grundaskóla og var spenningur í hópnum. Krakkarnir skiptu sér niður í þrjár stofur þar sem þau elstu voru í einni stofu og þessi yngri skiptu sér í tvær stofur. Þegar búið var að koma sér fyrir í stofunum fóru þau 11 ára og eldri í laugina og þessi yngri fóru að leika sér og svo að borða kvöldmat. Þegar þessi eldri voru búin að synda komu þau í skólann, fengu sér að borða og svo var komin ró í stofurnar um kl. 21.30 og flestir yngri krakkarnir sofnaðir um kl. 22.00. Gekk rosalega vel, þó svo að einhverjir hefður frekar kosið að hafa mömmu hjá sér, svona eins og gengur.

Laugardagurinn byrjaði á því að eldri hópurinn vaknaði rúmlega 6, fór í morgunmat og svo upphitun kl. 7. Í Jaðarsbakkalauginni eru 5 brautir og því þéttsetið á hverri braut í upphitun. Yngri hópurinn fékk að sofa aðeins lengur en vöknuðu engu að síður flest rúmlega 7 enda mikill spenningur í gangi. Bryndís (mamma Ingimundar) og Dóra (mamma Svanhildar og Matthildar) fylgdu þeim eftir ásamt nokkrum foreldrum. Því miður lék veðrið ekki við okkur, var bara nokkuð hvasst fram eftir degi og rigndi á tímabili líka. Birkir (pabbi Kristófers) og Lísa (mamma Snævars) fylgdu þeim eldri eftir. Yngri hópurinn fór svo í hádegismat kl. 11 og voru komin í upphitun kl. 12. Upphitun gekk nokkuð vel hjá þeim miðað við fjöldann sem var í lauginni.

Svo klukkan 13 byrjaði ballið og þá áttu allar stelpurnar að vera mættar í keppendaherbergið. Fyrst var öllum sem áttu að fara að synda í riðlinum safnað saman í íþróttahúsinu og svo var þeim marserað inn í skúr á bakkanum þar sem hver riðill var undirbúinn. Fararstjórar og foreldrar reyndu eftir fremsta megni að fylgja þeim eftir og aðstoða á bakkanum við að halda hita á þeim áður en hvert og eitt sund byrjaði. Allir komust á sýnar brautir á réttum tíma og stóðu sig vel í erfiðum aðstæðum. Þar sem veðrið var ekki sérstakt héldu keppendur mikið til í íþróttahúsinu og þar var líf og fjör.  Í þessari fyrstu grein voru 93 keppendur að reyna með sér í 50m skriðsundi. Ólöf Kristín gerði sér lítið fyrir og vann þessa grein. Einhver riðlaverðlaun skiluðu sér einnig í hús.

Strákarnir voru næstir. Þeir eru heldur færri og gekk mjög vel að koma þeim á rétta staði á réttum tíma. Það voru 53 keppendur í greininni og átti Óðinn sundmann í sjöunda sæti. Allir skiluðu sér í bakkann og fengu gild sund.

Nánari upplýsingar um úrslit má finna inná síðu mótsins: http://www.ia.is/vefiradildarfelog/sund/akranesleikar-2015/

Eftir þessa fyrstu prófraun fóru hlutirnar að ganga heldur betur fyrir sig og krakkarnir, fararstjórar og foreldrar áttuðu sig betur á því hvernig þetta gengur allt fyrir sig. Hlutanum lauk um kl. 16.45 og voru þá allir orðnir nokkuð þreyttir og svangir. Eftir mótshlutann fóru krakkarnir uppí skóla og fengu samloku til að seðja sárasta hungrið. Eldri krakkarnir voru þá á leið í laugina, en upphitun hjá þeim byrjaði kl. 17.00.

Kvöldið gekk vel fyrir sig, krakkarnir fengu þáttökuverðlaun og svo var í boði að horfa á bíómynd. Eldri krakkarnir voru svo búnir að keppa rúmlega 20 og fóru þá í kvöldmat. Flestir voru svo komnir í ró kl 21.30 og sofnaðir eins og kvöldið áður um kl. 22.

Á sunnudeginum var ræs kl. 6.15 fyrir yngri krakkana og upphitun byrjaði kl 7. Veðrið var heldur betra þennan daginn og flestir að verða nokkuð sjóaðir í ferlinu. Þegar keppnin var búin var farið aftur uppí skóla til að næra sig og taka saman dótið sitt. Eftir matinn var svo frjáls tími sem að krakkarnir nýttu í leik og sumir fóru niður á Langasand.

Þegar mótinu var svo lokið stóðum við uppi sem prúðasta liðið, í öðru sæti í stigakeppninni, með stigahæsta sundmann mótsins, hana Bryndísi Bolladóttur og ótal riðlaverðlaun.

Ferðin heim gekk nokkuð vel. Fengum okkur pizzu og ís í Borgarnesi, pissustopp í Staðarskála og Varmahlíð og voru komin heim á plan um kl 22.30. Á heildina litið gekk ferðin vel, þó svo að upp hafi komið grátur, hruflur, heimþrá, svengd og annað smávægilegt.

Fararstjórar stóðu sig með stakri prýði sem og keppendur og foreldrar sem fylgdu sínum börnum eftir.