Bryndís Rún Hansen útnefnd sundmaður Akureyrar 2010

Bryndís Rún Hansen var útnefnd sundmaður Akureyrar 2010 á uppskeruhátíð Sundfélagsins Óðins sem var haldin í sal Brekkuskóla í kvöld. Þar var farið yfir árangur liðins árs og sundmenn heiðraðir. Ljóst er að liðið ár var eitt hið besta í sögu félagsins sem er að festa sig í sessi meðal þeirra bestu á landinu.

Viðurkenningar veittar
Í krókódílahópi, sem er eldri hópur félagsins fyrir fatlaða, fengu Lilja Rún Halldórsdóttir og Vilhelm Hafþórsson viðurkenningar fyrir stigahæstu sund karla og kvenna. Í sama hópi fékk Breki Arnarsson viðurkenningu fyrir ástundun og Kristján Logi Einarsson fyrir framfarir. Í afrekshópi fengu viðurkenningu fyrir mestu bætingu á árinu Elísa Ýrr Erlendsdóttir og Birkir Leó Brynjarsson. Stigahæsta sund karla átti Freysteinn Viðar Viðarsson og stigahæsta sund kvenna Bryndís Rún Hansen.

Í yngri hópum fengu viðurkenningu fyrir ástundun Hákon Alexander Magnússon og Elín Kata Sigurgeirsdóttir og fyrir framfarir þau Saga Arnórsdóttir og Bryndís Bolladóttir.

Glæsilegur árangur Bryndísar á árinu
Á árinu vann Bryndís þrjá Íslandsmeistaratitla og þá er hún tvöfaldur Íslandsmethafi og fjórfaldur stúlknamethafi.  Hún var þannig Íslandsmeistari í 100 m flugsundi, bæði í 25 og 50 m laug. Þá varð hún Íslandsmeistari í 50 m flugsundi í 50 m laug. Bryndís er handhafi 52 Akureyrarmeta.

Bryndís vann sér inn keppnisrétt fyrr á árinu á fyrstu Ólympíleika ungmenna sem fram fóru í Singapore í ágúst 2010. Hún vann sér þátttökurétt með flestum greinum þ.e. fjórum sundgreinum og var stigahæsti sundmaður í verkefnið. Á Íslandsmeistaramóti í nóvember vann hún sér inn keppnisrétt í þremur greinum á Evrópumeistaramót í 25m laug. Mótið fór fram í Eindhoven í Hollandi í lok mánaðarins. Bryndís keppti í 50m flugsundi og varð hún í 24 sæti af 34 keppendum,  í 100m flugsundi endaði hún í 26 sæti af 30 keppendum og í 50m skriðsundi endaði hún í 32 sæti af 38 keppendum.

Af öðrum afrekum á árinu má nefna að hún varð Super Challenge meistari á Gullmóti KR í 50 m flugsundi, keppti á sterku sundmót í Bergen í maí og vann til þriggja verðlauna og var fimmti stigahæsti sundmaðurinn á alþjóðlega sundmótinu Reykjavík International.

Myndir frá kvöldinu