Bryndís og Sindri í ham í Svíþjóð

Fulltrúar Óðins hjá Bergensvømmerne í Noregi, þau Bryndís Rún Hansen og Sindri Þór Jakobsson, voru heldur betur í stuði á sterku sundmóti í Väsby í Svíþjóð um helgina. Sindri, sem nú er norskur ríkisborgari, bætti Noregsmetið í 100 og 200 m flugsundi og bæði náðu lágmarki fyrir Evrópumeistaramótið í 25 m laug í Póllandi.

Bryndís var að synda vel um helgina, nálægt sínum bestu tímum. Í 50 m flugsundi var hún aðeins 1/100 frá íslandsmeti sínu í greininni og syndi undir EM lágmarki bæði í undanrásum og úrslitum. Framundan er mikil mótatörn hjá Bryndísi. Fyrst ÍM25 hér heima um aðra helgi, þá Norðurlandamót unginga og síðan Evrópumeistaramótið í Póllandi en alltaf er ein helgi á milli.

Sindri Þór náði í raun einstökum árangri um helgina því hann á nú bæði norskt met og Íslandsmet í 200 m flugsundi. Sindri setti Íslandsmetið fyrir tæpum tveimur árum, í Istanbúl í desember 2009, en þá synti hann vegalengdina á 1:57,21 mínútu. Á laugardaginn sló hann síðan Noregsmetið í tvígang. Í seinna skiptið bætti hann metið um 54/100 úr sekúndu og synti á 1:57,20 mínútu, og er þar með kominn 1/100 úr sekúndu framúr Íslandsmetinu sínu. Um leið náði Sindri lágmarkinu fyrir Evrópumeistaramótið i 25 metra laug.

Sannarlega flottir krakkar og hafa greinilega fengið gott uppeldi hjá Óðni :)