Árangur keppenda Óðins á síðustu sundmótum

Undanfarin mánuð hefur sundfélagið Óðinn keppt á tveimur sundmótum sem fram hafa farið í sundlauginni í Laugardal í Reykjavík.  Það var mjög góð stund þegar hægt var að halda sundmót aftur á Íslandi en síðasta sundmótið fór fram í september 2020 (Sprengimót Óðins).  Síðan hefur ýmislegt gerst og verið æfingatakmarkanir, en iðkendur Óðins hafa verið iðnir við heimaæfingar og haldið sér í formi með ýmsum hætti.

RIG 2021

Fyrsta sundmót ársins var RIG (Reykjavík International Games) sem fram fór helgina 5. – 7. febrúar í Laugardalslaug.  Óðinn fór með 20 keppendur á mótið sem kepptu samtals í 73 greinum.  Mikill spenningur var í okkar fólki og mikil gleði að komast loksins á sundmót. Sundfólkið okkar stóð sig venju samkvæmt afar vel, en ljóst að mótafiðringur var til staðar og mörg  atriði sem þurfti að stilla betur af og læra að hluta til upp á nýtt.  Af þessum 73 stungum urðu bætingar í 37 eða 49% bæting heilt yfir. Það voru síðan 22 stungur sem gáfu tíma sem var innan við 3% frá besta tíma sem er frábær árangur. Fimm sundmenn Óðins syntu undir lágmarki fyrir ÍM50 á mótinu sem gefur góð fyrirheit um það sem koma skal. Þetta eru  þau Dagbjört Lilja í 50m bringu, Ólöf Kristín í 100m baksundi, Rebekka Sif í 200m skriðsundi, 200m fjórsundi og 400m fjórsundi, Embla Karen í 50m og 100m bringusundi og Bríet Björk í 50m bringu. Vel gert hjá ykkur krakkar! Keppendur Óðins voru við nokkuð erfiðar æfingar vikurnar fyrir þetta mót og því er árangur keppenda mjög góður í ljósi æfingaálagsins.  Stigahæsta sund Óðins á mótinu átti Rebekka Sif Ómarsdóttir en hún synti 200m skriðsund á tímanum 2:21.63 sem gaf henni 507 FINA stig.  Næsta sundmót fyrir eldri hóp sundfélagsins er sundmót í Hafnarfirði helgina 20. - 21. mars en það er jafnframt síðasta sundmótið sem hægt er að ná lágmörkum fyrir Íslandsmeistaramótið í 50m laug sem fram fer helgina eftir páska.

Fjölnismótið 2021

Helgina 5. - 7.mars fór fram sundmót Fjölnis í Laugardalslaug og fór sundfélagið Óðinn með 27 keppendur sem er einn stærsti keppenda hópur sem Óðinn hefur sent á mót undanfarin ár. Þessir 27 sundmenn stungu sér 216 sinnum til keppni á mótinu og urðu bætingar í 209 stungum eða 97% allra sunda sem leiddi til bætinga.  Eins og oft vill verða á mótum sem þessum þá var stór hópur keppenda Óðins að mæta til keppni  í fyrsta sinn í Laugardalslaug. Við slíkar aðstæðurkemur það aldrei á óvart að smá fiðringur og óöryggi geri vart við sig og því eiga sundmenn það til að gera ógilt. Þannig fór einnig í þessari ferð og er það bara eðlilegur hluti af því að stíga sín fyrstu skref á mótum af þessari stærðargráðu. Allir fara með reynslu heim af svona mótum og halda áfram að æfa sig eins vel og þeir geta.

Sundfélagið Óðinn kom heim með 42 verðlaunapeninga af þessu móti (11 gull, 15 silfur og 16 brons).  Óðinn skaraði fram úr öðrum liðum í árangri á þessu móti en það voru 13 sundmenn félagsins sem náðu á verðlaunapall. Magni Rafn Ragnarsson keppti  í 8 greinum og komst á verðlaunapall í sjö skipti og var það einnig besti einstaki árangur keppenda Óðins á mótinu.  Næst á eftir honum kom Ísabella Jóhannsdóttir sem keppti í 8 greinum og komst á verðlaunapall í sex af þeim sundum.

Magni Rafn Ragnarsson átti stigahæsta sundið í aldursflokknum 12 ára og  yngri og fékk sérstök verðlaun fyrir þann árangur. Frábær árangur sundfélagsins Óðins á þessu móti og gefur góð fyrirheit um það sem koma skal hjá iðkendum félagsins.  Allir keppendur stóðu sig vel og eldri keppendur voru mjög duglegir að hvetja og styðja þá yngri sem voru að stíga sín fyrstu skref á stóru móti.  Liðsandinn var flottur og hópurinn til mikillar fyrirmyndar.

Áfram Óðinn!

Ingi Þór Ágústsson, yfirþjálfari