Okkar fólk blómstrar á Special Olympics

Okkar fólki á alþjóðaleikum Special Olympics í Aþenu hefur gengið með miklum ágætum og kemur það heim með mörg verðlaun í farteskinu. Auk Jóns Gunnars Halldórssonar og Elísabetar Þ. Hrafnsdóttur, sem keppa á leikunum, er Dýrleif Skjóldal fararstjóri íslenska sundliðsins. Leikunum lýkur á morgun.

Keppnisfyrirkomulag ólíkt öðrum íþróttamótum
Íþróttakeppni á alþjóðaleikum Special Olympics er ólík öðrum íþróttamótum. Umfang og glæsileiki líkist helst ólympíumótum en keppnisform er ólíkt. Fyrstu dagana fer fram skipting í jafna getuflokka, eða riðla, með að hámarki 8 keppendum. Síðan er keppt til úrslita, veitt gull, silfur og brons fyrir fyrstu þrjú sætin í hverjum riðli og verðlaunaborðar fyrir fjórða til áttunda sæti. Þátttakendur á leikum Special Olympics eru einstaklingar með þroskahömlun en einnig er keppt í samsettum liðum fatlaðra og ófatlaðra.

Jón Gunnar að toppa á réttum tíma
Jón Gunnar Halldórsson hefur sannarlega blómstrað á leikunum. Hann keppti í 100 m bringusundi, 200 m bringusundi og 100 m fjórsundi, bætti persónulegan árangur sinn í öllum greinum og kemur heim gullinu ríkari eftir að hafa unnið sinn úrslitariðil í 100 m fjórsundi. Þá keppti hann í 4x50 m skriðsundi fyrir Íslands hönd en sveitin vann brons. Síðast en ekki síst náði hann með frammistöðu sinni lágmörkum fyrir Norðurlandamótið sem fram fer í haust.

Hann synti fyrst 100 m fjórsund á 1.20.00 og vann riðilinn. Daginn eftir synti hann sama sund í úrslitum, synti þá á 1:17.16 og tók gullið sem fyrr segir. Keppinautar hans í riðlinum voru fimm talsins og komu víða að, eða frá Bandaríkjunum, Ísrael, Honduras og Ecuador en 7 úrslitariðlar voru í sundinu.

Síðan keppti hann í 100 m bringu, gerði reyndar ógilt í undanrásum en fékk annað tækifæri og synti í úrslitariðli á tímanum 1:22.59 og varð þriðji. Keppinautar hans í riðlinum voru frá Kanada, Singapore og Kóreu. Alls voru 37 keppendur í sjö úrslitariðlum.

Loks synti hann 200 m bringusund á 3:03.58 í undanrásum og bætti sinn tíma þar um 9 sekúndur frá því í apríl. Hann bætti svo enn um betur í úrslitariðlinum og synti á 3:01,51 sem skilaði honum bronsinu. Nítján keppendur voru í sundinu sem skipt var í sjö riðla en Jón Gunnar keppti í fyrsta og jafnframt sterkasta riðli.

Lísa með tvö gull
Elísabet Þöll Hrafnsdóttir keppti í 50 skriðsundi og 50 baksundi. Hún gerði sér lítið fyrir og vann báða sína úrslitariðla. Í 50 m baksundi voru rúmlega 40 keppendur sem skipt var í 12 riðla. Í úrslitariðlinum synti Lísa með þremur öðrum keppendum, frá Cayman-eyjum, Ástralíu og Hollandi og vann á tímanum 1:11,00 sem var bæting um rúmar 3 sekúndur frá undanrásum.

Geysihörð keppni var í 50 m skriðsundi þar sem Lísa synti í úrslitariðli með 7 keppendum frá Hollandi, Kazakhstan, Mexíkó, Uruguay, Guadeloupe og Liechtenstein. Um 115 keppendur voru í sundinu og skipt í 27 riðla. Lísa synti úrslitasundið á 56,81 og bætti sig verulega frá undanrásum.

Mikil lífsreynsla
Án efa koma þau Jón Gunnar og Lísa heim reynslunni ríkari en upplifunin að keppa á stórmóti sem þessu er engu lík. Keppendur eru um 7.000 talsins frá 180 þjóðum og er ekkert til sparað að gera umgjörð leikanna sem glæsilegasta