Glæsilegur árangur á Ásmeginmóti SH '24

Ásmeginmót SH fór fram í Hafnarfirði 23.-24. mars síðastliðinn. Óðinn fór með 10 sundmenn á mótið sem stóðu sig allir með stakri prýði.  

Veðrið var auðvitað að setja smá strik í reikninginn og voru nokkrir sundmenn veðurtepptir á Akureyri og misstu því af fyrsta hluta mótsins á laugardagsmorgun. Sama átti við um þjálfarann en Kristjana sem fór með hópnum að þessu sinni var líka veðurteppt svo þau sem syntu á laugardagsmorgninum voru án þjálfara. Þau létu það sannarlega ekki á sig fá og röðuðu inn bætingum þann morguninn.  

Krakkarnir bættu sig öll og áttu á heildina litið mjög gott mót. Svona mót eru einnig mjög gott stöðutjékk til þess að meta vinnuna sem búið er að leggja inn síðustu vikur og svo marka stefnuna á næstu vikum. Við förum því heim með fullt af frábærum upplýsingum og viðfangsefnum sem hjálpar okkur að vaxa áfram.  

ÍM lið Óðins stækkaði um 25% þegar Magni Rafn Ragnarsson tryggði sér þátttökurétt í 1500m og 800m skriðsundi í þeim greinum á ÍM 50 sem fram fer í Laugardalslaug 12-14. apríl næstkomandi. Nokkrir sundmenn eins og t.d. Alexander Reid, voru mjög stutt frá lágmörkum svo við getum búist við að ÍM liðið okkar vaxi enn meira í haust. Við hlökkum til að sjá krakkana vaxa og dafna áfram í íþróttinni sinni.