Tenerife 2010 - ferðasaga

Tenerife dagur 12 - Líður að lokum
Síðasta æfingin er nú búin og senn líður að lokum þessarar frábæru ferðar. Í dag var byrjað á sundæfingu og svo var þrekæfing á ströndinni seinni partinn. Þá hefur dagurinn einnig verið vel nýttur fyrir sólböð og síðustu búðarferðir. Á morgun höldum við heim á leið, lendum á Íslandi annað kvöld og áætlum að vera komin að Sundlaug Akureyrar á milli kl. 2 og 3 á fimmtudganóttina. Nánar um það síðar. Nokkrar nýjar myndir

------------------------------

Tenerife dagur 10 og 11 - Stuð í Siam Park í dag
Í dag var frí frá æfingum, fyrsti og eini frídagur ferðarinnar. Því nutum við þess að sofa frameftir, vöknuðum bara rétt til þess að ná í morgunmat fyrir lokun og svo biðu ævintýri dagsins, sem ekki voru af lakari endanum.

Nesti bannað, eða hvað?
Um kl. hálf ellefu stormaði hersingin út um dyrnar á Hotel Oro Negro og tók stefnuna á vatnsleikja- og ævintýragarðinn Siam Park (www.siampark.net) hér skammt frá. Við vorum létt á okkur með nesti frá hótelinu (og margir í nýjum skóm). Við innganginn kom smá babb í bátinn en þar mætti okkur strangur vörður sem tilkynnti að alls ekki mætti fara með nesti með sér inn í garðinn. Hann (eða hún) bar það fyllilega með sér að það hefði sko enginn fengið að fara inn með nesti á hennar vakt. Hún hafði heldur aldrei hitt Ástu formann. Við fórum inn með nestið.

Kvöldmatnum sleppt
Garðurinn sá stóð fyllilega undir væntingum okkar og einnig lék veðrið við okkur í allan dag. Því bættist duglega við sólbrúnkuna (tanið) sem var þó nokkur fyrir. Rennibrautirnar í Siam Park eru margar all svakalegar og verður ekki lýst með orðum. Þarna dvöldum við lengi dags en um kl. 17 röltum við til baka á hótel. Við vorum nefni lega búin að ákveða að dekra aðeins við okkur í kvöld, sleppa  kvöldmatnum á hótelinu en fara þess í stað út að borða. Fyrir valinu varð staður í veitingahúsakeðjunni Tony Roma‘s. Maturinn smakkaðist bara vel og á eftir voru fararstjórarnir með hugmynd um að taka smá rölt um bæinn og ströndina. En nei, sundmenn Óðins vildu bara fara heim á hótel, ná ísnum sem alltaf er með kvöldmatnum og fara svo upp á herbergi að taka því rólega. Já þannig var þeirra hugmynd að góðu kvöldi.

Kannski ekki fermetrarnir sem skipta máli
Við höfum séð margt skemmtilegt og áhugavert hér á Tenerife. Tengiliður okkar hér er heiðursmaðurinn Patrik, sem auk þess að sjá um að taka á móti íþróttahópum rekur líkamsræktarstöð hér rétt við hótelið. Var hann æstur að fá okkur í heimsókn til að sýna herlegheitin og bauð okkur einnig að koma og æfa ókeypis ef við vildum. Við kíktum því við hjá kappanum. Stöðin hans er hin vistlegasta en áhugavert að bera hana saman við líkamsræktarstöðvar í okkar ágæta heimabæ. Afgreiðslan er ferhyrnt borð við innganginn, 40 cm á kant. Öll stöðin var kannski svona álíka og eitt búningsherbergi í einhverri þeirra þriggja líkamsræktarhalla sem Akureyringar hafa úr að velja. Þarna virtist fólk samt geta tekið vel á því og sinnti æfingum af kostgæfni. Já, maður veltir fyrir sér spurningunni um magn og gæði.

Margt lærist á morgunæfingum
Nú fer að líða að lokum þessarar frábæru ferðar. Á morgun er síðasti æfingadagur,  sundæfing kl. 8 og því ekki byrjað á þrekæfingu eins og undanfarna morgna. Þrekæfingarnar, sem felast í hlaupum og styrktaræfingum á eftir, hafa verið kl. 7 á morgnana (já, fyrir utan kl. 6 ein morguninn, hmmm). Þarna höfum við gjarnan verið að mæta síðustu nátthröfnunum sem eru að koma heim eftir skemmtun næturinnar. Þá hefur ekki farið framhjá okkar fólki að hér út á næsta horni virðast á þessum tíma sólarhrings eiga sér stað lífleg viðskipti á milli föngulegra kvenna og karlmanna „sem eiga leið hjá“. Hafði Svetlana á orði að þær virtust ekki einu sinni eiga frí á páskadag.

Engin æfing er á miðvikudag heldur munum við sofa frameftir, klára að pakka og leggja svo af stað heim upp úr hádeginu. Skiljanlega eru við öll farin að hlakka til að koma heim, sem er ómissandi hluti af góðu ferðalagi.

Myndir frá Siam Park og út að borða

---------------------

Tenerife dagur 8 og 9 - Akureyrarmet í æfingum
Akureyrarmet í dag, sagði Vlad en þá syntu krakkarnir 14 km, já plús þrekæfing og 6 km gönguferð í sundlaugina og til baka. Já, hér á Tenerife er sko engin afslöppun í gangi.

Þannig hafa síðustu tveir dagar liðið í góða veðrinu. Reyndar dró ský fyrir sólu í dag og seinnipartinn var jafnvel smá vindur í lauginni. Minnti bara á íslenskt sumarveður. Nei, reyndar var það ekki svo slæmt. ;-)

Allir þreyttir en glaðir
En eins og sjá má þá er ekki slegið slöku við í æfingum. Við ætlum sannarlega ekki að gera lítið úr því að krakkarnir eru þreytt en það sem öllu máli skiptir er að gleðin ræður ríkjum þrátt fyrir það. Þau vita og finna að þau eru að standa sig vel og þá er þreytan fljót að gleymast. Það er sannkölluð upplifun að fylgjast með þeim masa og hlæja í matsalnum á kvöldin, nýkomnum af erfiðri æfingu. Já, það er sko gaman að vera til á svona dögum. Reyndar virðist orkan hjá þessum börnum nánast ótæmandi. Þannig er gjarnan skotist í bæinn til að skanna nokkrar búðir yfir miðjan daginn, á milli æfinga. Evrunum fækkar eitthvað við þessar heimsóknir en margt fallegt bætist í staðinn við í farangurinn á heimleiðinni.

Páska(eggja)dagur á morgun
Tíminn líður áfram með alls konar skemmtilegum uppákomum. Í dag var afmælisbarn í hópnum þegar Ásdís Elfa varð 16 ára. Fékk hún að sjálfsögðu afmælissönginn í tilefni þess. Á morgun er páskadagur og páskaeggin bíða þess að ráðist verði á þau í fyrramálið. En við munum nota páskadaginn vel til æfinga, eins og aðra daga. Þrekæfing kl. 7, sundæfing 9-11 og aftur 17-19. Á mánudaginn stendur hins vegar til að sleppa öllum æfingum, sofa lengur frameftir og storma síðan í ævintýragarðinn Siam Park hér skammt frá. Til þess horfa allir með mikilli tilhlökkun.

Nýjar myndir eru á myndasíðu

--------------

Tenerife dagur 6 og 7 – Er afturábak áfram?
Lífið gengur sinn vanagang hér á Tenerife, þ.e. ef hægt er að kalla ævintýri sem þetta „einhvern vanagang“. Hverjum degi fylgja nýir og spennandi upplifanir og að sjálfsögðu sundæfingar.

Þvottadagurinn mikli
Eins og fram hefur komið í fyrri pistlum þá taka fararstjórarnir starf sitt mjög alvarlega og reyna stöðugt að kenna börnunum eitthvað nýtt.  Við vorum talsvert búin að skoða möguleika á því að þvo af okkur spjarirnar hér á Tenerife en líkaði ekki alveg verðið sem upp var sett. Með því að þurfa að borga 4 evrur fyrir eitt handklæði þóttumst við sjá að sjóðir okkar yrðu fljótlega tómir. Því skunduðu fararstjórar út í búð og fjárfestu í þvottaefni. Síðan var tekinn stórþvottur í baðkerinu á hverju herbergi. Hver og einn var síðan látinn þvo nærfötin sín og sokkana í vaskinum , undir ströngu eftirliti Steinu. Þeir sem ekki kunnu að þvo þvott  í höndunum hafa því hér með lært þá list. Reyndar tókst okkur síðan að blikka konuna í þvottahúsinu  og þvoði hún og þurrkaði  fyrir okkur 17 handklæði fyrir ekki neitt í dag. Hún reyndar skyldi ekki stakt orð af því sem við sögðum og við ekki hjá henni.

Fjallgangan mikla
Eins og minnst var á í fyrradag þá fórum við í alveg frábæra fjallgöngu. Fararstjórarnir þóttust vera búnir að stika úr bestu leiðina en af einhverjum óútskýrðum orsökum raskaðist sú áætlun eitthvað. Í staðinn fyrir að labba beint á fjallið leiddu forystuSAUÐIRNIR hópinn inn í næsta bæ, fyrir endann á fjallinu og þaðan tóku við allt að því endalausar tröppur (að sumum fannst) upp í gegnum byggðina. En það er alveg sama hvaða verkefni við leggjum fyrir þessar elskur, alltaf hlíða þau með bros á vör (eða svona oftast með brosa á vör ;-)) En fjallgangan stóð fyrir sínu og á eftir var farið í þrek á ströndinni. Í gær var ein sundæfing og síðan seinnipartsþrekæfing á ströndinni, hlaupið í sandinum og endað í sjónum þar sem fólk skemmti sér konunglega í öldunum. Í landæfingunum átti Erla Hrönn ummæli dagins (eins og stundum áður). Þegar allir voru köngulóarhlaup, aftur á bak og áfram var Erla eitthvað á skjön við hópinn. "Mér finnst alltaf afturábak vera áfram".

1.apríl
Í dag var 1. apríl og af þeim sökum voru allir varir um sig að láta nú ekki plata sig í tilefni dagsins. A.m.k. fór aprílgabb fararstjóranna algerlega út um þúfur. En Vlad tókst aðeins betur upp í lauginni. Byrjaði á að boða 10 km seinnipartsæfingu (sem reyndar var sögð vera að kröfu fararstjóranna) en síðan reyndist hún nú eitthvað styttri þegar til kom. Síðasta settið stytti hann síðan um 400 metra en svo kom í ljós að það var líka bara gabb.
Veðrið heldur áfram að leika við okkur og getur bara ekki verið betra. Við erum ein með laugina næstu daga og ætlum að nýta þá vel. Byrjað er á morgunæfingu kl. 7 og síðan eru tvær sundæfingar,  kl. 9-11 og 17-19. Prógrammið er því strangt, eins og vera ber, en þó lagað að þörfum hvers og eins.

Enn einu sinni viljum við fararstjórarnir ítreka hvílík forréttindi það eru að fá að vera með krökkunum ykkar þessa daga. Þau eru sjálfum sér, ykkur og félaginu sínu til sóma.

Nýjar myndir eru á myndasíðu

---------------------------

Tenerife dagur 5

Ekki var legið í leti í dag frekar en aðra daga. Byrjað var á sundæfingu, síðan var frjáls tími fram eftir degi sem flestir nýttu í búðarrölt þannig að eitthvað gek á gjaldeyrisvaraforða þjóðarbúsins í dag. Seinnipartinn var síðan farið í eins og hálfs tíma fjallgöngu og endað á þrekæfingu á ströndinni. Allir þreyttir, meira á morgun góða nótt. Myndir frá deginum eru á myndsíðu.

-------------------------

Tenerife dagur 4 – Úbbs, smá misskilningur!

Tenerifefarar lifa sem fyrr í sól og sælu. Ekki er þar með sagt að einhver afslöppun sé í gangi. Þvert á móti eru dagarnir þéttpakkaðir með hinum ýmsu athöfnum  frá morgni til kvölds og sumir dagar byrja fyrr en aðrir.

6 er ekki sama og 6
Þrekæfing kl. 6 var dagsskipun þjálfaranna og stundvíslega kl. 6 í morgun voru allir mættir niður í hótelanddyri. Ja, allir nema reyndar þjálfararnir. Fararstjórarnir tóku þá bara málin í eigin heldur og leiddu hópinn í brekkuhlaup og styrktaræfingar af sinni alkunnu röggsemi. Ásta formaður stjórnaði bakkaæfingum og fórst það eigin mati sérlega vel úr hendi. Þegar síðan morgunmatur hófst kl. 7 mættu rússnesku þjálfararnir okkar útsofnir og fínir. Hugsuðu sundmenn sér nú gott til glóðarinnar að nudda þeim upp úr því að hafa ekki náð að vakna kl. 6 eins og aðrir. Þá kom í ljós að þeir áttu við að þrekæfing í dag væri kl 6 – síðdegis. Smá misskilningur bara sem fararstjórum var að sjálfsögðu fyrirgefinn, eins og aðrar yfirsjónir sínar í ferðinni.

Fjör í Aqualandi
Nú eftir morgunmat var komið að fyrripartsæfingu, sem gekk að óskum. Við vorum fyrr á ferðinni en undanfarna daga og því ekki orðið eins heitt. Búið var að ákveða að sleppa seinnipartsæfingu í sundi en fara þess í stað í vatnsleikjagarðinn Aqualand. Þangað var stefnan tekin strax eftir hádegismat og ákveðið að fá sér gönguferð á staðinn. Halldór fararstjóri, sem lætur eins og hann þekki hvern krók og kima á Tenerife eftir að hafa verið þar einu sinni áður,  tók að sér að leiða hópinn. Þótt ótrúlegt megi virðast tókst það stóráfallalítið. Aqualad fór vel í okkar fólk sem skemmti sér konunglega í rennibrautum og öðrum tækjum garðsins. Einnig var farið á gríðarlega flotta höfrungasýningu sem tengist garðinum og var hreint ótrúlegt að sjá hvað þessi dýr geta gert.

Endað á ströndinni
Garðurinn lokaði kl. 5 og var þá tekin rúta til baka á hótel, enda nauðsynlegt að hafa hraðar hendur til að ná að mæta á áður boðaða þrekæfingu kl 6 – síðdegis. Hún var mjög skemmtileg og fór að mestu fram á ströndinni þar sem endað var á að skella sér í sjóinn. Reyndar voru ekki allir með sundfötin meðferðis og fóru því fremur „frjálslega“ klæddir í öldurnar, öðrum strandgestum til nokkurrar kátínu. Ekki fleiri orð um það. Myndir frá deginum eru komnar inn á vefinn.

Tenerife - Myndir frá degi fjögur

------------------------

Tenerife dagur 3 – Hvað er þetta með klukkuna?

Sólin hélt áfram að verma norðlenska sundgarpa í dag og líklegast hefur þetta verið heitasti dagurinn til þessa. Ýmislegt var brallað eins og fyrri daginn, þrek, tvær sundæfingar og eitt og annað þar á milli.

Plan dagsins lagt í rúst
Við vorum búin að útbúa vel ígrundaða dagskrá fyrir daginn en eins og alþjóð veit þá geta jafnvel vönduðustu áætlanir farið í vaskinn af ófyrirsjáanlegum orsökum. Meiningin var að taka daginn snemma, vakna korter fyrir sjö, fara í þrek, morgunmat og síðan morgunæfingu. Þegar við síðan söfnuðumst saman niður í lobbíi á tilsettum tíma og varð litið á klukkuna þá var hún alveg óvart að verða átta. Kom þá í ljós að upplýsingar á heimasíðu okkar ágætu ferðaskrifstofu voru ekki alls kostar réttar. Þar lásum við nefni lega að klukkunni á Tenerife  væri flýtt þann 1. apríl en það gerist víst á miðnætti  síðasta laugardag í mars. Þar með var plan dagsins runnið út í sandinn og dagurinn varla byrjaður. En ekki létum við þetta á okkur fá, tókum stutta þrekæfingu, snöggan morgunmat og snöruðum okkur svo á morgunæfingu. Sem fyrr höfðum við laugina út af fyrir okkur.

Heitt, heitt...
Seinnipartsæfing er kl. 3 sem getur verið erfitt þegar dagarnir eru heitir, en um annan tíma var ekki að ræða. Laugin hitnar líka þegar líður á daginn og voru flestir sammála um að æfingin í dag hefði verið ein sú erfiðasta á ferlinum. En þreytan virtist gleymast furðu fljótt, a.m.k. var engin þreytumerki að sjá á liðinu þegar lagt var af stað í gönguferð eftir kvöldmat. Tekinn var góður rúntur niður á strönd, kíkt inn í nokkrar búðir eins og gengur og gerist og svo aftur upp á hótel um kl. 21. Á morgun þarf að vakna snemma þar sem morgunæfing er kl. 6. Já, hér eru sko engin grið gefin. Reyndar er planið að brjóta dagskrána upp á morgun og sleppa seinnipartsæfingu en fara þess í stað í vatnsleikjagarðinn Aqualand hér stutt frá. Meira um það á morgun.

Sem fyrr er allt í góðu gengi. Ekki er því að neita að einhver roði sést á öxlum og bringu hjá einum og einum en allt er það innan eðlilegra marka. Allir eru hressir og kátir og engin veikindi komið upp.

Fararstjórar á sundnámskeiði
Loks má geta þess að í dag dró til tíðinda í sundlauginni. Ásta formaður tók sem sagt hina fararstjórana tvo á sundnámskeið til að  kenna þeim skriðsund. Ekki er gott að segja hvort um var að ræða einstaka kennsluhæfileika formannsins eða frábæra námshæfileika Halldórs og Steinu, en allavega voru þau útskrifuð mjög fljótlega sem fullfær um að bjarga sér sjálf yfir laugina. Féllu af þessu tilefni ýmsar stórar yfirlýsingar um væntanleg afrek umræddra nemenda í sundlauginni. Myndir frá deginum eru komnar á myndasíðu. Halldóri var ekki sleppt út að hlaupa í dag.

Myndir – Tenerife dagur 3

------------------------------

Dagur tvö á Tenerife – Hvað gerðist ekki í dag?
Annar dagur hér á Tenerife er að kvöldi kominn. Ef þeir sem á eftir koma verða jafn viðburðaríkir og þessi er ljóst að ekki þarf að kvíða leiðindum. Sólin skein glatt í allan dag og fullt starf að sjá til þess að allir noti sólvörn í ómældu magni.

Í keppni við ellilífeyrisþega
Nú var komið að því að prófa sundlaugina en þangað er um 15 mínútan labb frá hótelinu. Laugin er öll hin glæsilegasta, 50 metra löng með átta brautum. Morgunæfing gekk að óskum og síðan var rölt til baka á hótelið.

Fram að hádegismat var tími fyrir smá afslöppun sem sumir nýttu til að taka þátt í æsispennandi keppni í sundlaugargarðinum. Ekki vitum við hvað leikurinn heitir en hann fólst í því að rúlla tréskífum og reyna að hitta inn í hólf sem gáfu mis mörg stig. Óðinn sendi harðsnúna sveit til keppni sem atti kappi við íslenskt frjálsíþróttafólk og breska ellilífeyrisþega á níræðisaldri. Reyndust þeir síðarnefndu ansi færir í leiknum, af ástæðu sem kom í ljós þegar verðlaun fyrir sigurinn voru kynnt í lok leiks. Fararstjórarnir Ásta og Steina fóru fyrir Óðinsliðinu, sem vegnaði vel  lengst af. Leikar fóru þó svo að lokum að vörpulegur piltur úr frjálsíþróttaliði ÍR bar sigur úr býtum og fékk að launum fría drykki á barnum um kvöldið. Kom þá í ljós ástæðan fyrir ákefð hinna bresku keppinauta okkar, sem greinilega vissu hvað var í húfi og voru rétt hæfilega sáttir við úrslitin. Þótti þeim þarna sennilega fara góður biti í hunds kjaft, þar sem vinningurinn nýttist sigurvegaranum ekki, sem vonlegt er.

Lítill gróði af matnum
Eftir hádegismat var aftur slappað af áður en rölt var aftur í sundlaugina á seinnipartsæfingu, kl. 15. Þá höfðum við alla laugina út af fyrir okkur sem var sannarlega ekkert smá flott. Kvöldmatnum voru gerð góð skil og ljóst að Hotel Oro Negro græðir ekki mikið á því að vera með 17 svanga sundmenn frá Akureyri í fullu fæði. Dagurinn endaði svo á líflegum fundi þar sem afrek og atburðir dagsins voru rifjuð upp og mikið hlegið. Sem fyrr eru allir í fínu formi og biðja að heilsa heim. Alveg má minnast á að ástæðulaust er fyrir foreldra að eyða um of í símtöl út til unganna sinna. Hluti af ferðalagi sem þessu er að eflast og þroskast upp á eigin spýtur með því að deila kjörum með félögum sínum og fararstjórarnir gæta þess vandlega að öllum líði vel.

Þáttur Halldórs fararstjóra
Ekki verður skilið við afrek dagsins án þess að minnast á þátt kalkyns fararstjóra ferðarinnar, sem átti hvern stórleikinn á fætur öðrum. Sem forfallinn hlaupari fékk hann leyfi til að taka skokktúr á meðan seinnipartsæfing stóð yfir. Mun hann hafa verið frelsinu feginn og bar hratt yfir. Ekki gætti hann þó betur að sér en svo að skyndilega stóð hann augliti til auglitis við öryggisvörð með alvæpni. Var sá ekki nema rétt hæfilega sáttur á svipinn og veifaði vélbyssunni óspart.  Þegar hlauparinn knái frá eyjunni köldu í norðri loks fór að líta í kringum sig sá hann enda lögreglumenn á hverju götuhorni. Kom þá í ljós hann hafði álpast inn á afgyrt öryggissvæði í tengslum við einhvers konar fund háttsettra manna og var „vinsamlega“ beðinn um að hafa sig á brott. Eitthvað fékk þetta á okkar mann og þegar heim á hótel var komið tók ekki betra við. Tókst honum sem sagt að læsa sig út á svölum í herberginu sínu og mátti ræsa út björgunarlið sem samanstóð að Ástu og Steinu til að leysa sig úr prísundinni. Sem þær og gerðu þegar þær náðu andanum af hlátri. Já, það gerist ýmislegt í sundferðalögum. Myndir frá deginum eru komnar á myndasíðu.

Myndir frá degi tvö

-------------------------

tenerife01_027Tenerife - dagur 1

Þá er fyrsti dagur hér á Tenerife að kvöldi komið og óhætt að segja að allt hafi gengið eins og í sögu. Veðrið leikur við okkur og allir eru hressir og kátir. Myndir eru einnig komnar á myndasíðu.

Langt og strangt ferðalag
Ferðalagið var að sönnu langt frá því að það hófst við Sundlaug Akureyrar kl. 11 í gærkvöld. Ferðin suður var tíðindalítil framan af og sóttist bæði hratt og vel. Þegar skammt var eftir í Borgarnes var samt ekki laust við að það færi aðeins um mannskapinn þegar rútan allt í einu neitaði að fara lengra. Við héldum þó alveg ró okkar þar sem við vissum af annarri rútu skammt á eftir okkur. Halldór Hauksson bílstjóri og fyrrum sundmaður í Óðni dó þó ekki ráðalaus og eftir að hafa gramsað í vélarrými rútunnar góða stund hafist hún í gang aftur og gekk til Keflavíkur, með smá hökti þó.

Heislað með sól og blíðu
Við vorum komin í Leifsstöð um kl. 4:30 og ekki byrjað að tékka inn. Við slöppuðum því bara af í smá stund en svo fór allt í gang og við drifum okkur upp í morgunmat. Vélin fór í loftið á tilsettum tíma kl. 8 og við tók fimm og hálfs tíma flug til Tenerife. Við fengum glæsilegt útsýni yfir þessa fallegu eyju í aðfluginu þar sem Teide, hæsta fjall Spánar, heilsaði okkur með snjó í hlíðum. Veðrið sem tók á móti okkur var heldur ekkert slor, yfir 20 stiga hiti og glampandi sól. Stutt er af flugvellinum á hótel og greiðlega gekk að koma öllum fyrir í sínum herbergjum. Þá var klukkan um 15 og sextán klukkutíma ferðalag að baki frá Akureyri.

Fyrsti í "tani"
Ákveðið var að taka bara daginn í hvíld og afslöppun. Flestur skelltu sér fljótlega í sundlaugargarðinn í sólbað og sælu, bleyttu kannski aðeins í sér í hótelsundlauginni, fararstjórar fór í innkaup og skipulagsvinnu og í kvöldmat mættum við stundvíslega kl. 18:30. Hótelið er mjög fínt og maturinn fjölbreyttur og góður. Eftir kvöldmat var tekið smá rölt um hverfið og þegar þetta er skrifað, um kl 21 er allir að koma sér í háttinn. Í fyrramálið er fyrsta sundæfing á dagskrá en um 15 mínútna labb er í sundlaugina. Biðjum að heilsa öllum heima með ósk um að þið passið nú að klæða ykkur vel í norðangarranum :)

Myndir frá deginum

Upplýsingar um ferð